MONICA CANEMAN
Stjórnarformaður
Monica er fædd árið 1954. Hún er sænsk og býr í Svíþjóð. Hún var fyrst kjörin sem stjórnarmaður á hluthafafundi 18. mars 2010. Hún er ekki hluthafi í Arion banka og er óháður stjórnarmaður. Monica er formaður lánanefndar stjórnar.
Monica útskrifaðist með BS-gráðu í hagfræði frá Stockholm School of Economics árið 1976.
Um þessar mundir situr Monica í stjórnum margra fyrirtækja og félagasamtaka og er formaður nokkurra þeirra. Hún starfaði hjá Skandinaviska Enskilda Banken (nú SEB) frá 1977 til 2001. Monica gegndi ýmsum störfum innan viðskiptabankahluta bankans. Árið 1995 tók hún sæti í framkvæmdastjórn og varð aðstoðarforstjóri 1997. Samtímis varð hún varamaður í stjórn bankans. Monica lét af störfum í bankanum 2001. Síðan hefur hún einbeitt sér að setu í stjórnum fyrirtækja.
GUÐRÚN JOHNSEN
Varaformaður
Guðrún er fædd árið 1973 og er búsett í Bandaríkjunum. Hún var fyrst kjörin í stjórn Arion banka á hluthafafundi 18. mars 2010. Hún er ekki hluthafi í bankanum og er óháður stjórnarmaður. Guðrún er formaður starfskjaranefndar stjórnar og situr jafnframt í endurskoðunar- og áhættunefnd stjórnar.
Guðrún lauk MA-prófi í hagnýtri hagfræði frá University of Michigan, Ann Arbor í Bandaríkjunum árið 2002 og ári síðar MA-prófi í tölfræði frá sama skóla. Hún lauk BA-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands 1999.
Guðrún starfar í dag sem lektor í fjármálum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Frá 2009 til 2010 starfaði Guðrún fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sem leitaði orsaka og atburða sem leiddu til falls íslenska bankakerfisins árið 2008. Hún var lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík frá 2006 til 2013. Á árunum 2004 til 2006 starfaði Guðrún sem sérfræðingur í fjármálakerfisdeild Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hún var aðstoðarkennari og aðstoðarmaður í rannsóknum hjá University of Michigan, Ann Arbor frá 2002 til 2003. Guðrún starfaði sem verðbréfamiðlari hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. (FBA) á árunum 1999 til 2001. Hún sat í stjórn Rekstrarfélags MP Fjárfestingarbanka hf. og er stjórnarformaður ÞOR ehf. (Þróunar og rannsókna).
BENEDIKT OLGEIRSSON
Benedikt er fæddur árið 1961. Hann var fyrst kjörinn í stjórn Arion banka á hluthafafundi 18. desember 2013. Hann er ekki hluthafi í bankanum og er óháður stjórnarmaður. Benedikt situr í lánanefnd stjórnar.
Benedikt lauk meistaraprófi í framkvæmdaverkfræði og verkefnastjórnun við University of Washington í Seattle árið 1987. Hann hefur einnig lokið námskeiðum tengdum stjórnun, rekstri og fjármálum, m.a. við Wharton Business School og Harvard Business School. Benedikt lauk prófi í byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1986.
Benedikt hefur verið framkvæmdastjóri þróunar á Landspítalanum frá 2015. Hann hafði áður verið aðstoðarforstjóri spítalans frá 2010. Á árunum 2005 til 2009 starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá Atorku hf. Benedikt var framkvæmdastjóri Parlogis ehf. frá 2004 til 2005. Hann starfaði sem stjórnandi hjá Eimskip hf. frá 1993 til 2004, sem forstöðumaður flutningamiðstöðvar í Sundahöfn, forstöðumaður innanlandsflutninga og síðast sem forstöðumaður Eimskips hf. í Hamborg. Frá 1988 til 1992 starfaði Benedikt sem verkefnastjóri við mannvirkjagerð. Benedikt var stjórnarmaður í Promens hf. frá 2005 til 2010. Hann sat einnig í stjórn InterBulk Group, sem er skráð í Kauphöllinni í London, frá 2007 til 2010. Auk þess var Benedikt stjórnarformaður Icepharma hf. og Parlogis ehf. frá 2005 til 2007.
BRYNJÓLFUR BJARNASON
Brynjólfur er fæddur árið 1946. Hann var fyrst kjörinn í stjórn Arion banka á hluthafafundi 20. nóvember 2014. Hann er ekki hluthafi í bankanum og er óháður stjórnarmaður. Brynjólfur situr í lánanefnd stjórnar.
Brynjólfur útskrifaðist með MBA-gráðu frá University of Minnesota árið 1973. Hann útskrifaðist með cand.oecon.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1971.
Brynjólfur var framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands frá 2012 til 2014. Á árunum 2007 til 2010 starfaði hann sem forstjóri Skipta. Brynjólfur var forstjóri Símans frá 2002 til 2007. Hann starfaði sem forstjóri Granda hf. frá 1984 til 2002. Frá 1976 til 1983 starfaði Brynjólfur sem framkvæmdastjóri AB bókaútgáfu. Brynjólfur var auk þess forstöðumaður hagdeildar VSÍ á árunum 1973 til 1976. Brynjólfur hefur mikla reynslu af stjórnarsetu og hefur setið í fjölmörgum stjórnum í gegnum tíðina og gegnt stjórnarformennsku í nokkrum þeirra.
ÞÓRA HALLGRÍMSDÓTTIR
Þóra er fædd árið 1974. Hún var fyrst kjörin sem aðalmaður í stjórn bankans á aðalfundi hans 21. mars 2013 eftir að hafa setið sem varamaður í stjórn síðan á aðalfundi bankans þann 24. mars 2011. Hún er ekki hluthafi í bankanum og er óháður stjórnarmaður. Þóra situr í endurskoðunar- og áhættunefnd stjórnar og starfskjaranefnd stjórnar.
Þóra lauk kandídatsprófi í lögfræði við Háskóla Íslands árið 2000 og öðlaðist réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 2002.
Þóra hefur starfað sem sérfræðingur við lagadeild Háskólans í Reykjavík í vátrygginga-, samninga- og skaðabótarétti frá 2011. Fyrir þann tíma starfaði Þóra hjá tveimur tryggingarfélögum; hjá Tryggingamiðstöðinni hf. frá 2000 til 2005 og hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. frá 2005 til 2011. Þóra situr í stjórn Virk-Starfsendurhæfingarsjóðs ses., tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins, stjórn Lögfræðingafélags Íslands og er framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga. Hún er einnig formaður í úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og formaður úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna, tilnefnd af ráðherra.
KIRSTÍN Þ. FLYGENRING
Kirstín er fædd árið 1955. Hún var fyrst kjörin í stjórn Arion banka á hluthafafundi 22. mars 2012 sem varamaður. Hún var svo kjörin sem aðalmaður á aðalfundi bankans 20. mars 2014. Hún er ekki hluthafi í bankanum og er óháður stjórnarmaður. Kirstín situr í starfskjaranefnd stjórnar.
Kirstín lauk MA-prófi í hagfræði frá Northwestern University í Illinois í Bandaríkjunum árið 1983. Hún útskrifaðist með cand.oecon-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1980. Árið 1994 lauk hún námi í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands og diplómaprófi í evrópskum samkeppnisrétti frá Kings College í London 2004.
Kirstín starfar í dag sem sjálfstæður ráðgjafi. Á árunum 2011 til 2013 var hún einn þriggja nefndarmanna í Rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð. Þá var hún stundakennari og aðjúnkt við Háskóla Íslands frá 2007 til 2012 ásamt því að vera sérfræðingur við Rannsóknarstofnun í fjármálum og hagfræði við Háskólann í Reykjavík frá 2007 til 2009. Frá 2001 til 2007 starfaði Kirstín sem hagfræðingur, fyrst hjá Þjóðhagsstofnun og síðan á Hagfræðisviði Seðlabanka Íslands. Árið 1998 tók hún við ritstjórn hagfræðiorðasafns á vegum Íslenskrar málstöðvar við HÍ sem lauk með útgáfu árið 2000. Árin 1995 til 1998 var hún jafnframt hagfræðingur hjá Fiskifélagi Íslands. Þá vann hún sem ráðgjafi og umsjónarmaður markaðskannana hjá Hagvangi á árunum 1984 til 1986 og í framhaldi af því sem markaðsstjóri hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsana hf. (nú Icelandic Group hf.) til 1989. Kirstín hóf starfsferil sinn sem hagfræðingur hjá Félagi íslenskra iðnrekenda og síðar hjá OECD.
Kirstín hefur sinnt ýmsum stjórnar- og nefndarstörfum, en hún var m.a. formaður Samkeppnisráðs frá 2002 til 2005 og 2009 til 2012 sat hún í stjórn Miðengis ehf., eignarhaldsfélags í eigu Íslandsbanka. Kirstín hefur jafnframt setið í úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála frá árinu 2008.
MÅNS HÖGLUND
Måns er fæddur árið 1951. Hann er sænskur og býr í Portúgal. Hann var fyrst kjörinn sem aðalmaður í stjórn Arion banka á aðalfundi hans 24. mars 2011. Hann er ekki hluthafi í bankanum og er óháður stjórnarmaður. Måns er formaður endurskoðunar- og áhættunefndar stjórnar og situr í lánanefnd stjórnar.
Måns útskrifaðist með BS-gráðu í hagfræði frá Stockholm School of Economics árið 1975.
Frá 2002 til 2011 starfaði Måns hjá Swedish Export Credit Corporation (SEK) sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaþjónustu með sæti í framkvæmdastjórn bankans. Á árunum 1999 til 2002 vann hann fyrir bæði Unibank (sem forstöðumaður yfir Svíþjóð) og Nordea (sem forstöðumaður einkabankaþjónustu, Svíþjóð). Frá 1991 til 1999 starfaði Måns hjá Swedbank, m. a. sem forstöðumaður fyrirtækjasviðs. Árið 1984 hóf hann störf hjá Götabanken í London en færði sig svo til Stokkhólms innan sama banka árið 1989 þar sem hann starfaði sem forstöðumaður alþjóðafjármálasviðs til 1991. Måns gegndi ýmsum störfum hjá Hambros Bank í London frá 1977 til 1984, m.a. sem svæðisstjóri fyrir Danmörku og Ísland í tvö ár. Áður starfaði hann við kennslu og vann við rannsóknir hjá Stockholm School of Economics.
VARAMENN Í STJÓRN ERU:
- Björg Arnardóttir, viðskiptafræðingur
- Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir, lögfræðingur
- Ólafur Örn Svansson, hæstaréttarlögmaður