Afkoma af reglulegri starfsemi
Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 16,8 milljörðum króna samanborið við 12,7 milljarða árið 2014. Aukninguna má einkum rekja til hækkana í hreinum vaxtatekjum og hreinum þóknanatekjum auk þess sem aðstæður á verðbréfamörkuðum voru hagfelldar á árinu. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam 10,4% á árinu samanborið við 10,7% árið 2014.Rekstrartekjur
Rekstrartekjur hækka verulega á milli ára eða um 60%. Hækkunin er að stórum hluta tilkomin vegna 26,0 milljarða króna hækkunar á hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga og 5,6 milljarða króna hækkun á hreinum fjármunatekjum.
Hreinar vaxtatekjur hækka um 11% milli ára og vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna hækkar úr 2,8% árið 2014 í 3,0% á árinu 2015. Aukinn vaxtamunur skýrist að talsverðu leyti af hærri verðbólgu árið 2015 en var 2014 en einnig skýrist hann af aukinni áherslu á fjölbreyttari fjármögnun og lausafjárstýringu bankans.
Hreinar fjármunatekjur hækkuðu mikið milli ára eða um 5.554 milljónir króna. Vegur þar þyngst virðishækkun á beinum og óbeinum 9,3% eignarhlut í evrópska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco Gerber í tengslum við skráningu félagsins á hlutabréfamarkað í lok mars. Almennt var ávöxtun hlutabréfa góð á árinu en óveruleg verðbreyting varð á skuldabréfum. Þá varð gengistap af mynt 182 milljónir króna á árinu en 2014 varð hagnaður af mynt um 813 milljónir króna. Þessi breyting vegur nokkuð á móti hagstæðri þróun á verðbréfamarkaði á árinu.
Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga jókst verulega milli ára. Á árinu 2015 voru tvö félög, sem bankinn átti umtalsverða eignarhluti í, skráð á markað. Þetta voru Reitir fasteignafélag hf. og Síminn hf., en bankinn hafði umsjón með skráningu félaganna í kauphöll og seldi í tengslum við það eignarhluti í félögunum. Á árinu var einnig unnið að sölu á 46% eignarhlut dótturfélagsins BG12 slhf. í Bakkavor Group Ltd. í samvinnu við aðra hluthafa félagsins. Í byrjun árs 2016 var allur sá eignarhluti seldur og endurspeglast söluverðið í verulegri virðishækkun á hlutnum í árslok. Samtals skilar sala á eignarhlutum í þessum félögum og virðisbreytingar 29,3 milljörðum króna í hagnað á árinu 2015.
Rekstrarkostnaður
Rekstrarkostnaður ársins 2015 nam samtals 28.196 milljónum króna. Kostnaðarhlutfall lækkar í 32,6% en var 50,1% árið 2014. Þessi mikla lækkun skýrist alfarið af háum tekjum af virðisbreytingum hlutabréfa og eignasölu og gefur á engan hátt til kynna væntingar um sambærilegt hlutfall til framtíðar. Kostnaður sem hlutfall af eignum nam 2,9% og er það sama hlutfall og var 2014.
Laun og launatengd gjöld námu 14.892 milljónum króna á árinu 2015 og hækkuðu um 7% frá árinu 2014. Stöðugildi samstæðunnar voru að meðaltali 1.139 sem er aukning um 11 stöðugildi frá árinu 2014. Reiknuð hækkun meðallauna er ríflega 6% sem er nokkuð undir hækkun á meðalstöðu launavísitölu milli ára.
Hrein virðisbreyting var neikvæð sem nemur 3.087 milljónum króna. Umtalsverðar virðishækkanir urðu á lánum til fyrirtækja í kjölfar endurskipulagningar og sömuleiðis vegna uppgreiðslu lána. Virðishækkun varð einnig nokkur á húsnæðislánum til einstaklinga í kjölfar leiðréttingar ríkisstjórnarinnar í upphafi árs 2015. Hins vegar varð veruleg virðislækkun á lánum hjá AFL – sparisjóði, bæði til einstaklinga og smærri fyrirtækja, eftir yfirtöku og yfirferð á því lánasafni. Þá var færð veruleg varúðarniðurfærsla á lán til erlendra fyrirtækja í þjónustustarfsemi tengdri olíuleit í kjölfar erfiðleika á þeim markaði.
Tekjuskattur nam 3.135 milljónum króna samanborið við 4.679 milljónir króna árið 2014. Tekjuskattur, eins og hann er settur fram í ársreikningi, samanstendur af 20% tekjuskatti af hagnaði og 6% sérstökum fjársýsluskatti sem lagður er á hagnað fjármálafyrirtækja umfram einn milljarð króna. Virkt tekjuskattshlutfall er aðeins 6% á árinu 2015 samanborið við 17,7% árið 2014. Lágt tekjuskattshlutfall á árinu skýrist einkum af óskattskyldum tekjum sem tilkomnar eru vegna hagnaðar og virðisbreytinga af hlutabréfaeign, sem ekki eru skattskyldar hjá fyrirtækjum.
Efnahagsreikningur
Heildareignir samstæðu Arion banka aukast nokkuð milli ára eða um 8%. Helstu breytingar má rekja til aukningar útlána, verðbréfaeignar og eignarhluta í hlutdeildarfélögum en á móti lækka lán til lánastofnana nokkuð.Lánasafn samstæðunnar er vel dreift. Um helmingur þess er lán til einstaklinga og hinn helmingurinn er til fyrirtækja í hinum ýmsu atvinnugreinum og er skiptingin í takt við samsetningu íslenska efnahagsumhverfisins.
Þegar horft er til gæða útlánasafns bankans eru ýmsir mælikvarðar notaðir. Þeir tveir sem bankinn hefur helst horft til eru annars vegar hlutfall vandræðalána, sem skilgreind eru sem hlutfall bókfærðs virðis lána sem komin eru í 90 daga vanskil og lána sem talin eru þurfa sértæka niðurfærslu af heildarlánasafni bankans til viðskiptavina. Hlutfall vandræðalána í árslok 2015 var 2,5% en var 4,4% í árslok 2014. Hins vegar horfir bankinn til hlutfalls lána bankans sem hafa verið niðurfærð. Það hlutfall var í árslok 4,9% en í árslok 2014 var hlutfallið 7,0%.
Verðbréfaeign nam 133.191 milljónum króna í árslok, og eykst um tæplega þriðjung milli ára. Breytingu ársins má annars vegar rekja til hækkunar á skuldabréfaeign, sem einkum tengist aukinni áherslu á lausafjárstýringu, og hins vegar til hækkunar á hlutabréfastöðum, sem hækka m.a. vegna skráningar og sölu félaga sem áður voru flokkuð sem hlutdeildarfélög í bókum bankans en bankinn á nú minni eignarhluti í og flokkast þá eignin sem verðbréfaeign.
Skuldir og eigið fé
Skuldir samstæðu Arion banka hækka nokkuð milli ára og er það einkum ný lántaka sem skýrir þá hækkun. Eigið fé og minnihluti hækka einnig verulega, einkum vegna góðrar afkomu ársins.Heildarinnlán námu 480.734 milljónum króna í árslok sem er hækkun frá fyrra ári þegar þau voru 477.849 milljónir í árslok.
Lántaka bankans nam 256.058 milljónum króna í árslok og hefur hækkað um 28% frá fyrra ári. Arion banki hélt áfram útgáfu sértryggðra skuldabréfa, sem eru tryggð í samræmi við lög nr. 11/2008 um sértryggð skuldabréf. Samtals voru gefin út sértryggð skuldabréf fyrir 23,6 milljarða króna á árinu. Á árinu voru einnig gefin út óveðtryggð skuldabréf í evrum upp á 300 milljónir evra eða sem nam um 45 milljörðum króna. Skuldabréfin eru til þriggja ára og voru seld til um 100 alþjóðlegra fjárfesta. Um var að ræða fyrstu útgáfu íslensks banka í evrum til breiðs hóps fjárfesta og jafnframt stærstu einstöku skuldabréfútgáfuna frá árinu 2008. Markaði hún þannig þáttaskil hvað varðar aðgengi íslensks banka að erlendum skuldabréfa- og lánsfjármörkuðum. Þá gaf bankinn einnig út á árinu skuldabréf í norskum krónum að fjárhæð 800 milljónir norskra króna í tveimur hlutum, sem samsvarar um 13 milljörðum króna, en sú útgáfa er til fimm ára. Fjárfestar þessara bréfa voru frá Norðurlöndunum og frá meginlandi Evrópu. Sú útgáfa var að hluta til notuð til endurgreiðslu á óhagstæðari útgáfu í norskum krónum frá árinu 2013, sem bankinn hefur nú keypt til baka um tvo þriðju af, en lokagjalddagi er í mars 2016.
Víkjandi lán bankans námu 10.365 milljónum króna í árslok 2015 og hafa lækkað um ríflega tvo þriðju á árinu. Breytingin er tilkomin vegna niðurgreiðslu upp á um 20 milljarða króna, þar sem hluti nýrrar skuldabréfaútgáfu var nýttur til greiðslu víkjandi skuldar við íslenska ríkið. Kjör víkjandi skulda hækkuðu í byrjun árs 2015, skv. skilmálum, eða úr 4% í 5% álag ofan á LIBOR. Við það myndaðist enn frekari hvati til niðurgreiðslu og unnið verður að uppgreiðslu skuldarinnar eins fljótt og aðstæður leyfa.
Heildar eigið fé samstæðunnar nam 201.894 milljónum króna í árslok 2015 og hafði hækkað um 24,5% milli ára. Eigið fé hluthafa bankans nam 192.786 milljónum króna í lok árs 2015 samanborið við 160.711 milljónir króna í lok árs 2014. Hækkunin skýrist að mestu af afkomu ársins að teknu tilliti til arðgreiðslu í apríl sem nam 12,8 milljörðum króna. Hlutfall eiginfjárþáttar A hjá bankanum nam 23,4% í árslok 2015 samanborið við 21,8% í árslok 2014.
Hlutdeild minnihluta nam 9.108 milljónum króna í árslok og hafði hækkað um 7.607 milljónir króna á árinu, einkum vegna virðisbreytinga á eignarhlut BG 12 slhf. í Bakkavor Group Ltd. undir lok ársins.