Eignastýringarsvið
Eignastýringarsvið Arion banka, ásamt dótturfélögum, er leiðandi í eignastýringu á Íslandi með um 997 ma. kr. í stýringu. Sviðið skiptist í eignastýringu fagfjárfesta, einkabankaþjónustu, fjárfestingarþjónustu og rekstur lífeyrissjóða. Eignastýring Arion banka stýrir fjármunum fyrir hönd viðskiptavina samkvæmt fyrirfram ákveðinni fjárfestingarstefnu hvers og eins. Jafnframt annast sviðið sölu á sjóðum Stefnis hf. til einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og fagfjárfesta sem og sölu á sjóðum alþjóðafyrirtækja. Til viðbótar sinnir sviðið rekstri lífeyrissjóða. Á eignastýringarsviði voru 34 stöðugildi í árslok 2015. Framkvæmdastjóri sviðsins er Margrét Sveinsdóttir.
Fjölbreytt þjónusta til að mæta ólíkum þörfum
Eignastýringarsvið sérhæfir sig í að veita viðskiptavinum með ólíkar fjárfestingaþarfir fjölbreytt úrval ávöxtunarmöguleika. Áhersla er lögð á breitt vöru- og þjónustuframboð þar sem hagsmunir viðskiptavina eru ávallt hafðir að leiðarljósi. Eignastýringarsvið hefur á að skipa starfsfólki með áratuga reynslu og þekkingu af fjármálamörkuðum og eignastýringu. Lögð er áhersla á persónulega þjónustu sem byggist á góðri samvinnu við viðskiptavini. Þannig er lagður grundvöllur að traustu langtímasambandi við viðskiptavini og fjárhagslegum ávinningi þeirra.
Lögð er áhersla á persónulega þjónustu sem byggist á góðri samvinnu við viðskiptavini. Þannig er lagður grundvöllur að traustu langtímasambandi við viðskiptavini og fjárhagslegum ávinningi þeirra.
Hagfellt ár að baki
Segja má að árið 2015 hafi verið hagfellt í starfsemi eignastýringar. Áherslur í stýringu eigna skiluðu góðri ávöxtun. Flestir eignaflokkar komu vel út, þá sér í lagi íslenski hlutabréfamarkaðurinn en úrvalsvísitalan hækkaði um 43,4%. Eignir í stýringu hjá samstæðunni jukust um 7,9% á árinu eða alls 73 ma. kr. Þessi vöxtur samanstóð annars vegar af ávöxtun og hins vegar af innflæði nýrra fjármuna frá núverandi og nýjum viðskiptavinum. Mikil aukning var í sölu verðbréfasjóða Stefnis hf. í netbankanum sem gefur til kynna áhuga almennings á verðbréfasjóðum og vilja þeirra til að nýta sér rafrænar leiðir.
Eignir í stýringu hjá samstæðunni jukust um 7,9% á árinu eða alls 73 ma. kr. Þessi vöxtur samanstóð annars vegar af ávöxtun og hins vegar af innflæði nýrra fjármuna frá núverandi og nýjum viðskiptavinum.
Nýr launagreiðendavefur – aukin þjónusta
Í lok árs var þjónusta við launagreiðendur aukin með opnun nýs launagreiðendavefs. Vefurinn býður meðal annars upp á einfaldari vinnslu skilagreina fyrir lífeyrissparnað og aðgang að lífeyrisyfirlitum fyrir launagreiðendur.
Áframhaldandi góður árangur Frjálsa lífeyrissjóðsins
Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem er í rekstri hjá Arion banka, hélt áfram velgengni sinni og var valinn besti lífeyrissjóður Evrópu í sínum stærðarflokki af hinu virta fagtímariti Investment Pension Europe (IPE). Undanfarin ár hefur sjóðurinn hlotið níu alþjóðleg verðlaun.
Áframhaldandi ávinningur viðskiptavina
Framundan eru áhugaverðir tímar með afléttingu fjármagnshafta og gera má ráð fyrir auknum fjárfestingatækifærum fyrir fjárfesta. Eignastýring Arion banka mun áfram leitast við að skapa og finna fjárfestingakosti fyrir viðskiptavini til að ávaxta fjármuni þeirra eins og best verður á kosið. Unnið verður sem fyrr að því að skapa ávinning fyrir viðskiptavini með góðri ávöxtun, faglegum vinnubrögðum og markvissri áhættustýringu, ávallt með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi.
Fyrirtækjasvið
Fyrirtækjasvið veitir stærri fyrirtækjum landsins heildstæðar lausnir sem þjóna þeirra þörfum hverju sinni. Sviðið býður lausnir á sviði fjármögnunar, innlána, greiðslumiðlunar og virðisaukandi stafrænnar þjónustu. Mörg af stærstu fyrirtækjum landsins nýta sér þjónustu sviðsins og hafa verið viðskiptavinir um áraraðir. Í árslok 2015 voru 26 stöðugildi á fyrirtækjasviði. Framkvæmdastjóri sviðsins er Freyr Þórðarson.
Um fyrirtækjasvið
Starfsemi fyrirtækjasviðs skiptist í þrjú sérhæfð atvinnugreinateymi og teymi lánaráðgjafar og greiningar. Atvinnugreinateymin eru verslun og þjónusta, fasteignir og orka og sjávarútvegur. Í hverju teymi starfa viðskiptastjórar og þjónustustjóri. Hlutverk lánaráðgjafar og greiningar er að veita ráðgjöf og aðstoð við lánveitingar, áhættugreining og samningagerð og annað er tengist fyrirgreiðslu til viðskiptavina. Sviðið á í góðu samstarfi við önnur svið bankans, svo sem við viðskiptabankasvið, bíla- og tækjafjármögnunardeild bankans, markaðsviðskipti og fyrirtækjaráðgjöf, en viðskiptastjórar sviðsins gegna lykilhlutverki við ráðgjöf og milligöngu um lausnir og alhliða bankaþjónustu í þágu viðskiptavina.
Helstu viðburðir og verkefni ársins
Arion banki kom að margvíslegum fjármögnunarverkefnum með viðskiptavinum sínum á árinu og bættist við fjölbreyttur hópur nýrra viðskiptavina. Fyrirtækjasvið átti í góðu samstarfi um mörg áhugaverð verkefni með viðskiptavinum sínum á árinu og var síðari hluti ársins sérstaklega annasamur hjá öllum atvinnugreinateymunum. Vaxandi styrkur rekstrar og efnahags viðskiptavina bankans spilar þar stórt hlutverk en einnig vinna sviðsins við útfærslu stefnu bankans um varfærin skref í fjármögnun á alþjóðlegum mörkuðum í sjávarútvegi. Eins og búist var við var samkeppnin töluverð á árinu en aukin lausafjárbinding frá Seðlabanka Íslands á þriðja ársfjórðungi dró þó úr lánsfé í umferð. Lífeyrissjóðir voru áfram fyrirferðamiklir í fjármögnun og hafði þar lækkandi ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði á síðasta ári töluverð áhrif. Jafnframt komu erlendir bankar inn á markaðinn í tengslum við fjármögnun á sjávarútvegsfyrirtækjum eins og búist var við í upphafi síðasta árs, gjarnan í samstarfi við Arion banka.
Arion banki kom að margvíslegum fjármögnunarverkefnum með viðskiptavinum sínum á árinu og bættist við fjölbreyttur hópur nýrra viðskiptavina.
Sjávarútvegsteymið hóf árið á langtímafjármögnun á smíði tveggja uppsjávarskipa sem afhent voru á árinu, í samstarfi við erlendan banka. Samstarf við erlend fjármálafyrirtæki felur í sér bætta þjónustu við viðskiptavini bankans og hagstæðari fjármögnun. Leiddi slík lækkun vaxtakjara af sér þó nokkur fjármögnunarverkefni á árinu. Í þessum verkefnum hafa viðskiptavinir bankans náð að lækka meðalaldur skipaflota síns verulega og hagrætt með því í rekstri sínum. Fjárfestingar viðskiptavina bankans í sjávarútvegi voru töluverðar á árinu, en til viðbótar við fjármögnun skipa vann sjávarútvegsteymið að heildarfjármögnun nokkurra félaga ásamt því að fjármagna fjárfestingarverkefni viðskiptavina á erlendri grundu.
Á árinu var töluverður gangur í fasteigna- og orkutengdum verkefnum. Skrifað var undir samninga um kaup bandaríska þróunarfélagsins Carpenter & Company á hótelreitnum við Hörpu ásamt samningi við Marriott Edition hótelkeðjuna um rekstur fimm stjörnu 250 herbergja hótels á reitnum. Almennt var áfram mikill uppgangur í fasteignaverkefnum og jafnframt hefur bankinn fjármagnað uppbyggingu fyrsta kísilversins á Íslandi í Helguvík, sem mun hefja framleiðslu síðar á árinu 2016. Styrkur bankans við fjármögnun á umfangsmiklum verkefnum og ráðgjöf þeim tengdum nýttist einnig við skuldabréfaútgáfu Landsvirkjunar sem skráð var í kauphöllinni í Lúxemborg, en verkefnið var hluti af almennri fjármögnun Landsvirkjunar.
Skrifað var undir samninga um kaup bandaríska þróunarfélagsins Carpenter & Company á hótelreitnum við Hörpu ásamt samningi við Marriott Edition hótelkeðjuna um rekstur fimm stjörnu 250 herbergja hótels á reitnum.
Í verkefnum tengdum verslun og þjónustu var töluverður uppgangur og var breidd verkefna mikil. Ný fyrirtæki bættust í hópinn, svo sem fyrirtæki í ferðatengdri þjónustu, fjarskipta- og upplýsingatækni og fjármálaþjónustu. Jafnframt var nokkur áhersla lögð á þjónustu, aðra en útlán, sem hefur leitt af sér aukningu í þóknanatekjum sviðsins og bankans.
Bankinn var aðalstyrktaraðili Sjávarútvegsráðstefnunnar 2015 og gaf út í tengslum við ráðstefnuna metnaðarfullt sjávarútvegsrit þar sem rýnt var í framtíðina, ásamt því að starfsmenn fluttu erindi um uppbyggingu fiskeldis á Íslandi og tóku þátt í málstofum.
Starfsemi fyrirtækjasviðs
Heildarútlán sviðsins voru rúmir 226 ma.kr. í árslok 2015 eða sem nemur 33% af heildarútlánum Arion banka. Virði lánabókar sviðsins tók breytingum til lækkunar m.a. vegna gengisáhrifa, einkum vegna aukinna útlána til erlendra aðila og til viðskiptavina í sjávarútvegi. Þá var hluti lánabókarinnar færður til innan bankans til að auka áherslu á að mæta þörfum viðskiptavina bankans. Fyrirtækjasvið tók þátt í fjölbreyttum verkefnum viðskiptavina sinna og eru um 17% af lánabók sviðsins lán sem veitt voru til nýrra viðskiptavina bankans. Fjölda viðskiptavina á fyrirtækjasviði fjölgaði því nokkuð á árinu og áhættudreifing jókst. Eitt af markmiðum síðasta árs var að auka þóknanatekjur af hefðbundinni starfsemi og gekk það vel.
Fyrirtækjasvið tók þátt í fjölbreyttum verkefnum viðskiptavina sinna og eru um 17% af lánabók sviðsins lán sem veitt voru til nýrra viðskiptavina bankans.
Árið fram undan
Efnahagshorfur á Íslandi fyrir árið 2016 virðast vera nokkuð góðar sem stendur, þótt óróleiki á mörkuðum erlendis kunni að hafa áhrif. Bankinn telur að fjárfestingar á sviði orkufreks iðnaðar, innviða, sjávarútvegs og í ferðamannatengdri starfsemi haldi áfram, en framboð fjármagns mun vissulega hafa áhrif á þá þróun.
Samkeppnin mun væntanlega vera sem fyrr töluverð á lánamarkaði, og gera má ráð fyrir því að lífeyrissjóðir muni áfram spila stórt hlutverk. Fyrirtækjasvið Arion banka er vel í stakk búið til þess að takast á við þessa samkeppni og mun áfram leggja áherslu á að efla viðskiptasambönd til langs tíma.
Starfsfólk fyrirtækjasviðs mun halda áfram að fylgja stærri viðskiptavinum Arion banka í þeirra verkefnum með heildstæðum lausnum og virðisaukandi þjónustu sem færist sífellt meir inn á stafrænar brautir. Mun Arion banki fjárfesta í slíkum tæknilausnum til hagsbóta fyrir okkar viðskiptavini og íslenskt atvinnulíf.
Fjárfestingarbankasvið
Meginhlutverk fjárfestingarbankasviðs Arion banka er að leiða saman kaupendur og seljendur á fjármálamarkaði og veita fyrirtækjum og fjárfestum ráðgjöf um uppbyggingu rekstrar og efnahags. Þannig eru helstu þjónustuþættir fjárfestingarbankasviðs miðlun hvers kyns markaðsbréfa og fyrirtækjaráðgjöf. Greiningardeild bankans tilheyrir jafnframt sviðinu en hún gefur reglulega út efnahags- og fyrirtækjagreiningar til viðskiptavina. Hjá sviðinu voru 31 stöðugildi í lok árs 2015. Framkvæmdastjóri sviðsins á árinu 2015 var Halldór Bjarkar Lúðvígsson.
Á fjárfestingarbankasviði starfar reynslumikill hópur. Markmið sviðsins er að bjóða viðskiptavinum framúrskarandi greiningu, ráðgjöf og þjónustu á sviði verðbréfa- og gjaldeyrismiðlunar. Þannig er viðskiptavinum liðsinnt í leit að arðbærum fjárfestingarkostum og/eða þeir aðstoðaðir við að draga úr áhættu á óvissum tímum.
Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka veitir ráðgjöf við kaup, sölu, samruna og yfirtöku á fyrirtækjum og stærri eignarhlutum ásamt því að vera leiðandi umsjónaraðili með skráningum verðbréfa á Nasdaq Íslandi. Meðal viðskiptavina fyrirtækjaráðgjafar eru mörg af stærstu fyrirtækjum landsins og flestir helstu fjárfestar á Íslandi. Teymið býr yfir mikilli reynslu og fjölþættri þekkingu og er áhersla lögð á fagmennsku og vönduð vinnubrögð.
Meðal viðskiptavina fyrirtækjaráðgjafar eru mörg af stærstu fyrirtækjum landsins og flestir helstu fjárfestar á Íslandi.
Árið 2015 var viðburðaríkt í starfsemi fyrirtækjaráðgjafar og ber þar fyrst að nefna umsjón með skráningu þriggja félaga á Aðalmarkað Nasdaq Íslandi. Þetta voru félögin Reitir fasteignafélag hf., Eik fasteignafélag hf. og Síminn hf. Í aðdraganda þessara skráninga sá fyrirtækjaráðgjöf einnig um almenn útboð þar sem Arion banki seldi stóran hluta af eign sinni í þessum félögum. Jafnframt hafði fyrirtækjaráðgjöf umsjón með sölu og skráningu 3,3 ma.kr. skuldabréfaflokks útgefnum af Eik fasteignafélagi. Fyrirtækjaráðgjöf veitti einnig Reitum fasteignafélagi ráðgjöf við kaup á fasteignasafni fjárfestingarsjóðanna SRE I og SRE II auk þess að koma að umsjón með sölu og skráningu skuldabréfa að fjárhæð 3,8 ma.kr. sem gefin voru út undir nýjum skuldabréfaramma félagsins. Um mitt ár voru tímamót þegar fjármögnun á fyrstu kísilmálmverksmiðju landsins lauk, en þar veitti deildin ráðgjöf til Sameinaðs sílikons hf. auk þess sem bankinn veitti lánsfjármögnun.
Árið 2015 var viðburðaríkt í starfsemi fyrirtækjaráðgjafar og ber þar fyrst að nefna umsjón með skráningu þriggja félaga á Aðalmarkað Nasdaq Íslandi.
Árið 2016 verður spennandi ár og verkefnin fjölbreytt. Má þar nefna áframhaldandi ráðgjöf við fjármögnun Marriott Edition hótels við Hörpu auk íbúða sem þar verða byggðar. Bankinn vinnur jafnframt að kaupum á Verði tryggingafélagi hf. og kemur fyrirtækjaráðgjöf þar að. Önnur verkefni eru af ýmsum toga enda eru aðstæður í íslensku efnahagslífi um margt hagstæðar og tækifærin fjölmörg. Fyrirtækjaráðgjöf hyggst eftir sem áður vera leiðandi í því að veita fyrirtækjum og fjárfestum faglega ráðgjöf og styðja þannig við áframhaldandi uppbyggingu íslensks atvinnulífs og fjármagnsmarkaða.
Markaðsviðskipti sinna miðlun fjármálagerninga til innlendra og erlendra viðskiptavina bankans. Með fleiri skráningum á Nasdaq Íslandi hefur hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi öðlast aukna dýpt. Arion banki hefur sterka stöðu í veltu verðbréfa á Aðalmarkaði Nasdaq Íslandi. Hlutabréfamiðlun kom að sölu og skráningu þriggja félaga á aðalmarkað Nasdaq og skuldabréfamiðlun kom meðal annars að frumsölu skuldabréfa fyrir Byggðastofnun og sértryggðra skuldabréfa Arion banka sem hefur verið leiðandi í útgáfu sértryggðra skuldabréfa á Íslandi. Viðskipti á gjaldeyrismarkaði hafa verið að aukast ásamt því að vöruframboðið hefur verið að breikka. Arion banki hefur verið leiðandi í að bjóða viðskiptavinum sínum upp á vörur til að verja áhættu og býður nú einn íslenskra banka upp á olíuvarnir.
Arion banki hefur sterka stöðu í veltu verðbréfa á Aðalmarkaði Nasdaq Íslandi.
Megináhersla markaðsviðskipta hefur verið að veita stækkandi viðskiptavinahópi góða þjónustu og aðgang að framúrskarandi þekkingu og kerfum. Áhersla næstu missera mun áfram vera á vöruþróun, til að bjóða viðskiptavinum fleiri tækifæri til ávöxtunar og áhættudreifingar.
Greiningardeild fjallar um íslenskt efnahagslíf og spáir í framvindu efnahagsmála, þróun hagstærða og afkomu félaga og atvinnugreina.
Greiningardeild gefur út lesefni og kynningar, tekur þátt í fundum og svarar fyrirspurnum. Efni Greiningardeildar er ýmist ætlað almenningi, afmörkuðum hópi viðskiptavina eða starfsfólki bankans. Greiningardeild byggir efni sitt ætíð á opinberum upplýsingum. Deildin leggur áherslu á þjónustu við viðskiptavini Arion banka í samstarfi við aðrar deildir bankans.
Eitt af markmiðum greiningardeildar er að efla og bæta opinbera umfjöllum um íslenskt efnahagslíf. Greiningardeild er mönnuð sérfræðingum sem hafa menntun, áhuga og reynslu sem nýtist við umfjöllun efnahagsmála. Þeir hafa hæfni og metnað til þess að greina aðalatriði frá aukaatriðum og setja efni sitt fram á auðskiljanlegan hátt. Greiningardeild hefur fullt sjálfstæði frá öðrum deildum bankans.
Eitt af markmiðum greiningardeildar er að efla og bæta opinbera umfjöllum um íslenskt efnahagslíf. Greiningardeild er mönnuð sérfræðingum sem hafa menntun, áhuga og reynslu sem nýtist við umfjöllun efnahagsmála.
Sem dæmi um starfsemi deildarinnar á árinu 2015 má nefna að deildin stóð fyrir fimm opnum morgunfundum og ráðstefnum í höfuðstöðvum Arion banka þar sem m.a. úttektir á fasteignamarkaði og ferðaþjónustu voru kynntar ásamt hagspá deildarinnar. Þá kynntu sérfræðingar deildarinnar efni sitt á fjölmörgum fundum með viðskiptavinum Arion banka víða um land. Á árinu gaf deildin út 87 Markaðspunkta og 118 greiningar á skráðum félögum.
Framtíðarhorfur
Framtíðarhorfur fjárfestingarbankasviðs taka mið af því efnahagsumhverfi sem sviðið býr við. Horfur eru á að árið 2016 marki tímamót í íslensku efnahagslífi. Í kjölfar uppgjörs slitabúa gömlu bankanna er útlit fyrir að hægt verði að slaka á fjármagnshöftum, skuldastaða ríkissjóðs batni til muna og breyting verði á eignarhaldi stærstu fjármálafyrirtækja landsins. Íslensk fyrirtæki og fjárfestar eru almennt vel undir þessi tímamót búin. Skuldir fyrirtækja hafa ekki verið lægri í meira en áratug, kaupmáttur almennings hefur aukist, viðskiptakjör Íslands hafa batnað um 9% á síðustu tveimur árum, óskuldsettur gjaldeyrisforði Seðlabankans hefur stækkað hraðar en flesta grunaði, hagvaxtarhorfur eru betri en í flestum iðnríkjum og samt er verðbólga undir markmiði Seðlabankans. Íslenskur hlutabréfamarkaður hefur stækkað og skráðum félögum fjölgað og fjölbreyttari fjármögnun stendur nú útgefendum til boða á íslenskum skuldabréfamarkaði. Umhverfi viðskiptavina er að breytast og verða viðfangsefni fjárfestingarbankasviðs því fjölbreyttari.
Slökun fjármagnshafta opnar leið fyrir íslensk fyrirtæki að vaxa utan Íslands og gerir fjárfestum kleift að dreifa áhættu. Jafnframt er útlit fyrir að áhugi erlendra fjárfesta á Íslandi aukist. Aflétting hafta eykur sveiflur í gengi krónunnar en um leið opnast möguleikar fyrir íslensk fyrirtæki að verjast gjaldeyrisáhættu. Aflétting hafta er jákvætt skref og gefur færi á fjölbreyttara þjónustuframboði og skapar fjölmörg tækifæri.
Viðskiptabankasvið
Á viðskiptabankasviði Arion banka fá einstaklingar sem og lítil og meðalstór fyrirtæki vandaða fjármálaþjónustu sem veitt er í útibúum bankans um land allt, en bankinn starfrækir 23 útibú og afgreiðslur auk þjónustuvers. Megináhersla er lögð á að mæta þörfum viðskiptavina bankans með fjölbreyttu vöruframboði og faglegri fjármálaráðgjöf. Alls voru 355 stöðugildi hjá sviðinu í lok árs 2015. Framkvæmdastjóri sviðsins er Helgi Bjarnason.
Í útibúum og þjónustuveri er boðið upp á margvíslega þjónustu, varðandi t.d. inn- og útlán, sparnað, greiðslukort, lífeyrissparnað, tryggingar, verðbréf og sjóði. Undanfarin ár hefur með góðum árangri markvisst verið unnið að því að veita útibúum bankans auknar útlánaheimildir og færa ákvörðunarvald þannig nær viðskiptavinum okkar.
Helstu verkefni
Helstu verkefni undanfarinna ára hafa tengst ýmsum úrlausnarmálum sem og aukinni skilvirkni í starfseminni með fækkun útibúa, uppbyggingu svæðaskipulags og sameiningu í miðlægri bakvinnslu. Þá hefur verið mikil áhersla á innleiðingu straumlínustjórnunar með það að markmiði að bjóða enn betri bankaþjónustu.
Þá hefur verið mikil áhersla á innleiðingu straumlínustjórnunar með það að markmiði að bjóða enn betri bankaþjónustu.
AFL sparisjóður sameinaðist Arion banka á haustmánuðum og þótt slíku verkefni fylgi fjölmörg tækifæri, þá er ljóst að áskoranir bíða bankans varðandi úrvinnslu ýmissa lánamála.
Línur hafa verið lagðar varðandi nýja útfærslu og hönnun útibúa og hafa nú þegar þrjú útibú verið endurskipulögð og mun á næstu misserum fara fram breyting á fleiri útibúum. Þessi nýja útfærsla styður við áherslu bankans á virðisaukandi þjónustu starfsfólks og að auka möguleika í sjálfsafgreiðsluleiðum. Um leið verður horft til aðgerða til að auka hagkvæmni í rekstri útibúa t.d. með því að fækka fermetrum og gera sjálfsafgreiðsluleiðum hærra undir höfði.
Þá mun bankinn á árinu 2016 taka við rekstri bankaþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en Arion banki var hlutskarpastur í samkeppni um rekstur fjármálaþjónustu sem fram fór á árinu 2015. Áætlað er að hefja þar starfsemi 1. maí og felast í því mikil tækifæri. Það verður krefjandi en jafnframt spennandi verkefni að sinna bankaþjónustu á Keflavíkurflugvelli sem hefur verið í örum vexti að undanförnu og stefnir í að sá vöxtur muni halda áfram á næstu árum.
Þá mun bankinn á árinu 2016 taka við rekstri bankaþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en Arion banki var hlutskarpastur í samkeppni um rekstur fjármálaþjónustu sem fram fór á árinu 2015.
Í október 2015 gerði bankinn samning um kaup á öllu hlutafé í Verði tryggingum sem gefur bankanum spennandi tækifæri til að bjóða viðskiptavinum sínum breiðara vöruframboð. Að bjóða tryggingar sem hlut af fjármálaráðgjöf er tækifæri til að styrkja viðskiptatengsl og auka ánægju viðskiptavina. Kaupin eru háð samþykki viðeigandi eftirlitsaðila og mun framhaldið skýrast á fyrri hluta árs 2016.
Arion banki hefur haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð var fyrir nokkrum árum varðandi þjálfun starfsfólks og útskrifuðust á árinu 19 starfsmenn sem vottaðir fjármálaráðgjafar úr námi sem skipulagt er í samvinnu við Háskólann í Reykjavík. Samtals hafa 53 starfsmenn bankans útskrifast, fleiri en hjá öllum öðrum bönkum á Íslandi. Með vottuninni er búið að samræma þær kröfur sem gerðar eru til fjármálaráðgjafa og tryggja að þeir búi yfir nauðsynlegri þekkingu og færni í starfi. Þá hefur með þessu verið lagður grunnur að auknu samstarfi við OKKAR líf, dótturfélag bankans, með það að markmiði að ráðgjöf tengd líf- og sjúkdómatryggingum verði órjúfanlegur hluti af ráðgjöf tengdri töku íbúðalána.
Arion banki hefur haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð var fyrir nokkrum árum varðandi þjálfun starfsfólks og útskrifuðust á árinu 19 starfsmenn sem vottaðir fjármálaráðgjafar úr námi sem skipulagt er í samvinnu við Háskólann í Reykjavík.
Framtíðarhorfur
Á síðustu árum hefur sú vegferð sem hófst með þróun netbankans náð nýjum hæðum með fleiri sjálfsafgreiðsluleiðum svo sem appinu og aukinni áherslu bankans á að þróa og nýta þessar leiðir betur. Niðurstaðan er sú að við höfum nú meiri tíma til að sinna virðisaukandi þjónustu fyrir viðskiptavini okkar, þjónustu sem snýr að lántöku, sparnaði og innlánum, tryggingum og yfirsýn yfir fjármálin. Við munum halda áfram á þessari braut og nýta okkur tækifærin sem felast í sterku viðskiptasambandi við nær þriðjung markaðarins á Íslandi hvort sem litið er til heimila eða fyrirtækja.