Fjármálasvið
Fjármálasvið miðlar fjármagni með arðbærum og skilvirkum hætti innan Arion banka og sér til þess að lausafjárstaða bankans sé ávallt í samræmi við kröfur stjórnar og eftilitsaðila. Sviðið útvegar lánsfjármagn á innlendum og erlendum markaði á hagstæðum kjörum sem gera bankanum enn betur kleift að þjónusta viðskiptavini. Fjármálasvið sér einnig um markaðsvakt sem stuðlar að auknum seljanleika hluta- og skuldabréfa á íslenskum verðbréfamarkaði. Í árslok 2015 voru 50 stöðugildi á fjármálasviði. Framkvæmdastjóri sviðsins er Stefán Pétursson.
Fjármálasvið stundar virkt eftirlit með rekstrarkostnaði bankans. Sviðið stuðlar að bættum rekstri með því að gera stjórn og starfsmönnum bankans kleift að taka ákvarðanir sem byggja á góðum upplýsingum auk þess sem það annast skýrslugjöf til eftirlitsaðila og uppfyllir þannig kröfur sem eru undirstaða starfsleyfis. Fjármálasvið gerir árs- og árshlutareikninga bankans.
Það er þannig hlutverk fjármálasviðs að stuðla að því að einingar bankans, dótturfélög og bankinn í heild nái hámarksárangri fyrir viðskiptavini, starfsfólk og eigendur.
Hagdeild annast skýrslu- og upplýsingagjöf til eftirlitsaðila en regluleg skil á ýmsum upplýsingum eru ein af forsendum starfsleyfis bankans. Hagdeild styður einnig við ákvarðanatöku í Arion banka með því að veita stjórn og starfsmönnum upplýsingar og gögn.
Fjármögnun útvegar stöðuga fjármögnun á hagstæðum kjörum sem styrkir samkeppnishæfni bankans og gerir hann betur í stakk búinn til þess að þjónusta viðskiptavini sína.
Fjárstýring stýrir og miðlar fjármagni með skilvirkum hætti á milli eininga bankans. Deildin er miðstöð alls fjármagns í bankanum og sér um miðlun á innistæðum viðskiptavina, heildsölufjármögnun, gjaldeyri og öðrum fjármálaafurðum. Deildin stýrir einnig lausu fé og viðheldur jafnvægi í rekstri og efnahag bankans í samræmi við áhættuvilja stjórnar og reglur eftirlitsaðila. Fjárstýring sinnir hlutverki sínu á arðbæran og skilvirkan hátt.
Kostnaður og launavinnsla heldur utan um rekstrarkostnað bankans og veitir upplýsingar þar um. Deildin sinnir einnig virku kostnaðareftirliti og styður þar með við að kostnaðarhlutfall sé í samræmi við markmið og stuðlar að aukinni kostnaðarvitund innan bankans.
Reikningshald sér um gerð árs- og árshlutareikninga og veitir auk þess réttar og tímanlegar upplýsingar sem stuðla að bættum rekstri og eykur þar með traust eigenda, stjórnar, eftirlitsaðila og almennings.
Þróunar- og markaðssvið
Á þróunar- og markaðssviði voru í upphafi árs markaðsdeild, netviðskipti, verkefnastofa og A plús sem hefur umsjón með innleiðingu aðferðafræði straumlínustjórnunar innan bankans. Í október sameinuðust A plús og starfsmannaþjónusta bankans í nýja deild sem ber nafnið mannauður og tilheyrir skrifstofu bankastjóra. Í lok árs voru 29 stöðugildi á þróunar- og markaðssviði. Framkvæmdastjóri sviðsins er Rakel Óttarsdóttir.
Hlutverk markaðsdeildar er að styðja við uppbyggingu langtíma viðskiptasambands við viðskiptavini bankans með viðeigandi markaðssetningu og boðmiðlun. Markaðssetningin er í takt við stefnu og framtíðarsýn bankans og felst í markaðssetningu á vörum og þjónustu, viðburðastjórnun, innra markaðsstarfi og samfélagslegri ábyrgð ásamt því að hlúa að ímynd og vörumerki bankans.
Netviðskipti leiða þróun í rafrænum viðskiptum, stafrænni þjónustu og samskiptum við viðskiptavini bankans. Með því að bjóða sífellt fleiri möguleika á vefnum, í netbanka og Arion appinu hafa viðskiptavinir okkar aukið val og geta sótt bankaþjónustu hvar og hvenær sem er. Netviðskipti leiða einnig innleiðingu CRM sem skilar sér í skilvirkari starfsemi og betri þjónustu við viðskiptavininn.
Verkefnastofa stýrir verkefnaskrá bankans og valferli verkefna. Verkefnastofa hefur á að skipa faglegum verkefnastjórum sem stýra stærri verkefnum þvert á bankann með stefnu og framtíðarsýn bankans að leiðarljósi. Öflug verkefnastýring stuðlar að aukinni skilvirkni í framkvæmd verkefna og aðkomu allra hagsmunaaðila að verkefnum.
Rekstrarsvið
Rekstrarsvið styður við starfsemi bankans með það að markmiði að allir starfsmenn bankans fái nýtt færni sína til fulls í þágu viðskiptavina. Sviðið samanstendur af upplýsinga- og tæknisviði, viðskiptaumsjón, fasteignum og rekstri, skjalastjórn og innkaupastjórn. Í árslok 2015 voru 260 stöðugildi á rekstrarsviði. Framkvæmdastjóri sviðsins á árinu 2015 var Sigurjón Pálsson.
Upplýsinga- og tæknisvið styður við starfsemi bankans með sveigjanlegum og öruggum lausnum á sviði upplýsingatækni, markvissri ráðgjöf og þjónustu við notendur. Öflug upplýsingakerfi og markviss hagnýting upplýsingatækni styður við stefnu bankans um að vera öflugur tengslabanki þar sem upplifun viðskiptavinarins er í öndvegi.
Áherslur ársins 2015 voru á framtíðarsýn og einföldun kerfismyndar, aukna skilvirkni, gæði og öryggi í rekstri upplýsingatæknilausna, betri upplifun viðskiptavina og enn betri þjónustu við notendur í bankanum. Á árinu 2016 verður lögð aukin áhersla á að nýta tæknina til að auka stafrænt aðgengi viðskiptavina að vörum og þjónustu bankans, að sjálfvirknivæða verklag og þróa snjallar stafrænar lausnir til handa viðskiptavinum. Stöðugur og öruggur rekstur upplýsingakerfa og gæði lausna verður áfram í brennidepli.
Viðskiptaumsjón ber ábyrgð á frágangi viðskipta, s.s. útlána, innlána og verðbréfaviðskipta. Í því felst m.a. að tryggja rétta skráningu í kerfi bankans og fylgni við reglur um útfyllingu skjala. Sérfræðingar viðskiptaumsjónar veita framlínu ráðgjöf ásamt því að vera í beinu sambandi við erlend og innlend fjármálafyrirtæki og í auknum mæli viðskiptavini bankans.
Megináherslur ársins 2015 voru að auka skilvirkni ferla, efla samskipti við viðskiptavini til að stytta boðleiðir og bæta innra gæðaeftirlit sviðsins. Áherslur ársins 2016 verða áfram þær sömu ásamt samþættingu starfsemi lífeyrisþjónustunnar við viðskiptaumjón en hún bættist í hópinn á seinni hluta ársins 2015.
Markmið fasteigna og reksturs er að tryggja öllu starfsfólki gott vinnuumhverfi sem styður það í verkefnum þess. Deildin sér m.a. um húsnæði bankans víðsvegar um landið, samtals um 30 þúsund fermetra, og rekur ýmsa þjónustu fyrir starfsmenn, s.s. veitingaþjónustu og prentþjónustu.
Skjalastjórn hefur umsjón með og stýrir skipulagi á skjölum bankans, bæði rafrænum og pappírsskjölum. Meginverkefni ársins 2015 var innleiðing nýs skjalastjórnarkerfis bankans og lýkur þeirri innleiðingu á árinu 2016.
Innkaupastýring hefur það hlutverk að samræma innkaup bankans. Með skýrri og öflugri innkaupastýringu er mögulegt að ná mikilli hagræðingu í rekstri. Styrk stýring innkaupa eflir samband bankans við birgja hans og tryggir honum bestu kjör.
Lögfræðisvið
Á lögfræðisviði er lögð áhersla á sjálfstæða lögfræðiráðgjöf, vandaða skjalagerð og faglega innheimtu krafna. Lögð er áhersla á tengsl við aðrar deildir bankans til að tryggja að lögfræðingar komi nægjanlega snemma að þeim álitaefnum sem til úrlausnar eru. Lögfræðisvið skiptist í fjórar einingar; endurskipulagningu eigna og málflutning, lögfræðiinnheimtu, lögfræðiráðgjöf og lögfræði- og skjalagerð útlánasviða. Í árslok 2015 voru 42 stöðugildi á lögfræðisviði. Framkvæmdastjóri sviðsins er Jónína S. Lárusdóttir.
Í endurskipulagningu eigna og málflutningi er unnið að endurskipulagningu yfirtekinna eigna og félaga og fullnustu krafna Arion banka og annarra aðila sem gerðir eru sérstakir samningar um. Jafnframt er þar sinnt málflutningi fyrir bankann.
Í lögfræðiinnheimtu er, eins og nafnið gefur til kynna, unnið að innheimtu þeirra krafna bankans sem komnar eru á það stig í innheimtuferlinu.
Í lögfræðiráðgjöf er unnið að ráðgjöf fyrir tilteknar deildir bankans, auk þess sem veitt er yfirsýn og upplýsingar um nýja löggjöf, dóma, ákvarðanir og fyrirmæli stjórnvalda. Þá annast lögfræðiráðgjöf ráðgjöf á sviði samkeppnismála og skattamála.
Í lögfræði- og skjalagerð útlánasviða er unnið að ráðgjöf og skjalagerð fyrir viðskiptabankasvið og fyrirtækjasvið. Þar eru tveir hópar, sem sérhæfa sig annars vegar í ráðgjöf og skjalagerð fyrir einstaklinga og hins vegar fyrir fyrirtæki auk annarrar lögfræðiþjónustu við útlánasviðin.
Skrifstofa bankastjóra
Undir skrifstofu bankastjóra falla meðal annars, fyrir utan bankastjóra sjálfan, aðstoðarmenn/ritarar, sérfræðingur í viðskiptaþróun, forsvarsmaður Arion banka í nýsköpun og umboðsmaður viðskiptavina. Jafnframt tilheyrir mannauður, samskiptasvið og regluvarsla skrifstofu bankastjóra. Í árslok 2015 tilheyrðu 17 starfsmenn skrifstofu bankastjóra.
Þannig felast verkefni sviðsins meðal annars í almennri aðstoð við bankastjóra og utanumhaldi vegna stjórnar- og nefndarfunda. Viðskiptaþróun sinnir þróun og stefnumótun bankans til lengri og skemmri tíma. Meðal verkefna á sviði nýsköpunar má nefna Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík. Í verkahring umboðsmanns viðskiptavina er greining og eftirfylgni á málum einstaklinga og fyrirtækja.
Mannauður er ný deild innan bankans. Þar koma saman kraftar starfsmannaþjónustu og A plús teymis bankans, sem samanstendur af sérfræðingum bankans í straumlínustjórnun. Áður var starfsmannaþjónusta hluti af rekstrarsviði og A plús teymið hluti af þróunar- og markaðssviði. Markmið nýrrar deildar er þannig að vinna markvisst að framþróun í mannauðstengdum málum með áherslu á að styðja við stjórnendur og starfsfólk bankans með hliðsjón af straumlínustjórnun.
Mannauður hefur að leiðarljósi að veita viðskiptavinum sínum, þ.e. starfsmönnum og stjórnendum bankans, sem besta þjónustu. Markmið deildarinnar er að laða að og halda í hæft starfsfólk, tryggja árangur þess sem og að upplýsa, styðja og veita ráðgjöf. Deildin stýrir innleiðingu straumlínustjórnunar hjá öllum einingum bankans með betri bankaþjónustu að leiðarljósi.
Samskiptasvið heldur utan um samskipti og almanna- og fjárfestatengsl bankans gagnvart ytri markhópum ásamt boðskiptum við innri markhópa.
Regluvarsla bankans hefur það hlutverk að tryggja að starfsemin sé lögum samkvæmt og í samræmi við varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Nánar um regluvörslu Arion banka.