Ársskýrsla 2015
Ársreikningur
Árið 2015
  • Lykiltölur
  • Ávarp stjórnarformanns
  • Ávarp bankastjóra
  • Helstu atburðir ársins
  • Efnahagsumhverfið
  • Árið 2015
    • Lykiltölur
    • Ávarp stjórnarformanns
    • Ávarp bankastjóra
    • Helstu atburðir ársins
    • Efnahagsumhverfið
  • Mannauður og stjórnarhættir
    • Mannauður
    • Yfirstjórn
    • Stjórn
    • Stjórnarhættir
  • Stefna og samfélagsábyrgð
    • Stefna og framtíðarsýn
    • Samfélagsábyrgð
    • Nýsköpun
  • Betri bankaþjónusta
    • Þjónustusvið
    • Stoðsvið
    • Innra eftirlit
    • Dótturfélög
    • Eignaumsýslufélög
  • Fjárhagur og áhættustýring
    • Fjármögnun og lausafjárstaða
    • Áhættustýring
    • Fjárhagsniðurstöður
    • Fjárhagsskjöl

Efnahagsumhverfið

Kröftugur vöxtur var í hagkerfinu á árinu 2015. Innlend eftirspurn tók vel við sér, verðbólga var undir markmiði Seðlabankans og áfram dró úr atvinnuleysi. Þrátt fyrir að framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar hafi verið neikvætt var þó nokkur afgangur af utanríkisviðskiptum. Enn eitt metárið var í komu erlendra ferðamanna en fjöldi þeirra er sóttu landið heim fór í fyrsta skipti yfir milljón. Fjárhagsleg skilyrði heimila bötnuðu enn frekar og var ríkissjóður rekinn með afgangi. Þá héldu eignamarkaðir áfram að dafna. Fyrstu skrefin við losun fjármagnshafta voru stigin og sér nú loks fyrir endann á þeim. Nokkrir áhættuþættir eru þó til staðar, þeir helstu snúa að losun fjármagnshafta og þeim áhrifum er afnámið kann að hafa m.a. á gengi krónunnar og fjármagnsstreymi til og frá landinu og að hagvaxtarhorfum hjá helstu viðskiptalöndum Íslands og sviptingum á hrávörumörkuðum.

Hagvöxtur tekur við sér

Allmikill þróttur var í hagkerfinu á árinu 2015, eftir lakan vöxt árið á undan. Innlend eftirspurn jókst umtalsvert og tóku bæði einkaneysla og fjárfesting vel við sér. Sérstaklega varð mikil aukning í atvinnuvegafjárfestingu sem jafnaðist að hluta á móti samdrætti í öðrum fjárfestingum. Framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar var neikvætt þar sem innflutningur jókst nokkuð umfram útflutning, þrátt fyrir einn eitt metárið í komu erlendra ferðamanna. Engu að síður er hagkerfið loksins komið yfir það framleiðslustig sem var hér þegar fjármálakreppan skall á í árslok 2008.

Hagvöxtur
Heimild: Hagstofa Íslands
Landsframleiðsla á föstu verðlagiVísitala = 100 árið 2008
Heimild: Hagstofa Íslands

Spenna og átök lituðu fregnir af vinnumarkaði á árinu. Minna fór fyrir fréttum af batnandi aðstæðum á vinnumarkaði þrátt fyrir að af nógu væri að taka. Hlutfall starfandi einstaklinga hækkaði enn frekar frá fyrra ári og á sama tíma fjölgaði heildarvinnustundum. Í upphafi árs 2015 stóð atvinnuleysi í 4,3% en mældist 3,1% á fjórða ársfjórðungi. Þá er einkum jákvætt að minnkandi atvinnuleysi skýrist af fjölgun starfa á árinu en ekki af því að einstaklingar séu að yfirgefa vinnumarkaðinn. 

Nú er svo komið að atvinnuleysi er komið niður í 20 ára meðaltal sitt og virðist því sem bróðurpartur batans sé kominn fram. Helstu vísbendingar um vinnumarkaðinn benda þó til áframhaldandi bata á næstu misserum, en að hægjast taki á honum, ekki síst sökum hækkandi launakostnaðar.
Atvinnuleysi
Heimild: Hagstofa Íslands
Fjölgun/fækkun starfaBreyting frá fyrra ári
Heimild: Hagstofa Íslands


Uppgangur í fjárfestingu

Kröftugur vöxtur var í fjárfestingu á árinu 2015. Atvinnuvegafjárfesting var aðaldrifkraftur fjárfestinga og er útlit fyrir að sú þróun haldi áfram á næstu árum. Eftir kröftugan vöxt árið 2014 hefur íbúðafjárfesting gefið verulega eftir sem verður að teljast vonbrigði í ljósi sívaxandi eftirspurnar og aukinnar íbúðaþarfar út frá lýðfræðilegri þróun. Kannanir sem gerðar voru á seinni hluta ársins benda til að fjárfestingarvilji í hagkerfinu fari vaxandi, en að hann muni að mestu leyti birtast í formi aukinnar atvinnuvegafjárfestingar. Engu að síður á fjárfesting enn nokkuð í land til þess að ná langtímameðaltali sínu og er mikilvægt að hún nái sér almennilega á strik ef öflugur hagvöxtur á að raungerast.

Fjárfesting á Íslandi frá árinu 1980- fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu
Heimild: Hagstofa Íslands


Fyrstu skrefin stigin í losun hafta

Í júní kynntu stjórnvöld heildstæða áætlun um losun fjármagnshafta með þríþættum aðgerðum; gagnvart slitabúum föllnu bankanna, eigendum aflandskróna og innlendum aðilum. Í lok árs 2015 höfðu íslenskir dómstólar samþykkt nauðasamninga allra slitabúanna og verða því stöðugleikaframlög greidd í stað stöðugleikaskatts. Aflandskrónueigendum verður boðið að taka þátt í blönduðu uppboði á vegum Seðlabankans og höft á innlenda aðila verða svo losuð eftir því sem aðstæður leyfa. Ýmislegt er enn óljóst um nánari útfærslur og hvernig ferlinu muni vinda fram, en þetta eru tvímælalaust skref í rétta átt enda hafa gjaldeyrishöft til lengdar neikvæð áhrif á hagvöxt og bjaga fjármálamarkaði og eignaverð.

Matsfyrirtækin S&P, Moody‘s og Fitch hækkuðu öll lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs í kjölfar kynningar stjórnvalda á áætlun um losun fjármagnshafta. Hækkanirnar byggja á þeim forsendum að þeir fjármunir sem falla til ríkissjóðs við afnám hafta verði nýttir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Hjá S&P er lánshæfi Íslands metið BBB, Baa2 hjá Moody‘s og BBB+ fyrir erlendar langtímaskuldbindingar og A- fyrir innlendar langtímaskuldbindingar hjá Fitch. Allir matsaðilar telja að horfur hér séu stöðugar.

Afkoma ríkissjóðs 2007 til 2016Heildarjöfnuður og frumjöfnuður m.v. fjárlög 2016, ma.kr.
Heimild: Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Skuldir* og fjármagnskostnaður ríkissjóðs%
*Að undanskildum lífeyrisskuldbindingum
Heimild: Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjárlög ríkisins voru hallalaus á árinu 2015. Fjárlög gerðu ráð fyrir lítilsháttar afgangi en samkvæmt áætlun stjórnvalda undir lok árs stefnir í töluvert meiri afgang á árinu 2015 heldur en fjárlög gerðu ráð fyrir. Betri afkoma skýrist einkum af hærri arðgreiðslum frá fjármálafyrirtækjum, sér í lagi Landsbankanum. Gert er ráð fyrir miklum afgangi á rekstri ríkisins árið 2016. Afgangurinn skýrist nánast að öllu leyti af stöðugleikaframlögum frá slitabúunum en séu þau undanskilin er aðeins gert ráð fyrir lítilsháttar afgangi. Stjórnvöld hafa sett sér þá stefnu að verja stöðugleikaframlögunum í að greiða niður skuldir á komandi árum og má því gera ráð fyrir að skuldahlutfallið haldi áfram að lækka.

Dregið hefur úr afgangi af viðskiptum við útlönd

Töluverður afgangur hefur verið af viðskiptum við útlönd frá árinu 2009 og hefur afgangur verið að meðaltali um 5,4% af vergri landsframleiðslu á ári. Það virðist þó hafa dregið lítillega úr afganginum á árinu 2015, þrátt fyrir að afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði hafi aukist.
Viðskiptajöfnuður- sem hlutfall af VLF %
1. Án reiknaðra tekna og gjalda innlánsstofnana í slitameðferð og án Actavis fram til ársins 2012
Heimild: Seðlabanki Íslands

 
Á undanförnum árum hefur lágt raungengi stutt við útflutningsgreinar Íslands. Raungengið hækkaði þó nokkuð á árinu 2015 og var það að meðaltali 4% sterkara en ári áður. Sé litið til síðustu þriggja ára hefur raungengið styrkst um 16% og í lok árs 2015 mátti sjá lítinn mun á milli raungengis og meðalraungengis síðustu áratuga. Hækkun raungengis á árinu skýrist af nafngengisstyrkingu krónunnar og meiri verðbólgu hér á landi en að meðaltali í okkar helstu viðskiptalöndum.

Líkt og árið áður jókst innflutningur hraðar en útflutningur. Það kom þó ekki niður á afgangi utanríkisviðskipta þar sem viðskiptakjör bötnuðu nokkuð frá árinu áður. Verð á sjávarafurðum hækkaði og vann þannig á móti lækkun álverðs en saman standa ál- og sjávarafurðir undir tæplega helmingi af útflutningi landsins. Á sama tíma lækkaði almennt verð á hrávöru og því varð innflutningur til landsins ódýrari fyrir vikið. Munar þar mestu um gífurlega lækkun á olíuverði.

Verð á sjávarafurðum, áli og olíu- Verðvísitala sjávarafurða og olíu, janúar 2005 = 100, álverð $/tonn
Heimild: Seðlabanki Íslands

Ferðaþjónustan hélt áfram að vaxa og dafna og hefur nú fest sig í sessi sem ein mikilvægasta útflutningsgrein þjóðarinnar. Hinn mikli vöxtur ferðaþjónustunnar endurspeglast í örum vexti þjónustuútflutnings, en hlutfall þjónustuútflutnings í heildarútflutningi Íslendinga var tæp 48% árið 2015 eftir að hafa verið á bilinu 41-42% á árunum 2009-2012. Enn eitt metið var slegið í komu erlendra ferðamanna þegar tæp 1,3 milljónir ferðamanna sóttu landið heim. Það er 175% aukning frá árinu 2010.
Fjölgun ferðamanna og vöxtur þjónustuútflutnings
Heimildir: Ferðamálastofa, Hagstofa Íslands

 
Verðbólgan ennþá undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans

Verðbólga jókst lítillega á árinu 2015 en var engu að síður undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans allt árið. Samið var um brattar launahækkanir, vel umfram spár um framleiðniaukningu og verðbólgumarkmið Seðlabankans, og væntu flestir að talsvert verðbólguskot fylgdi í kjölfarið. Enn sem komið er hafa verðlagsáhrifin verið lítil og stóð ársverðbólgan í 2% við lok árs. Sé húsnæðisliðurinn undanskilinn mælist ársverðbólga 0,4% við lok árs. Töluverð óvissa er um framhaldið en olíuverð hefur hækkað nokkuð á undanförnum misserum sem eykur verðbólguþrýsting.

Seðlabankinn hóf vaxtahækkunarfasa um mitt árið í kjölfar undirritunar kjarasamninga og hækkaði stýrivexti um 0,5 prósentustig í júní og aftur í ágúst. Í nóvember hækkaði bankinn vexti um 0,25 prósentustig og stóðu því meginvextir bankans í 5,75% um áramót.

VerðbólgaÁrsverðbólga, breyting frá fyrra ári (%)
Heimild: Hagstofa Íslands

 
Vegna talsverðs gjaldeyrisinnflæðis styrktist gengi krónunnar nokkuð á árinu, jafnvel þótt Seðlabankinn væri virkur á gjaldeyrismarkaði og safnaði í gjaldeyrisforðann sem aldrei fyrr. Þannig námu hrein gjaldeyriskaup Seðlabankans um 272 milljörðum króna á árinu. Krónan styrktist gagnvart evru (8,4%) og pundi (2,9%) á árinu en veiktist lítillega gagnvart dollara (-1,2%).

Gjaldeyrismarkaður og íslenska krónan
Heimild: Seðlabanki Íslands

 
Eignamarkaðir sækja í sig veðrið

Mikill gangur var á innlendum hlutabréfamarkaði á árinu og hækkaði úrvalsvísitala aðallista Kauphallar Íslands um hátt í 50%. Leita þarf aftur til ársins 2005 til að finna viðlíka hækkun. Heildarviðskipti jukust að sama skapi, úr 276 ma.kr. árið 2014 í 389 ma.kr. árið 2015, eða um 40% á milli ára. Þrjú ný félög voru tekin til viðskipta og eru félög á aðallista Kauphallar Íslands því orðin 16 talsins.

Fasteignamarkaðurinn hélt áfram að sækja í sig veðrið. Aukin umsvif í hagkerfinu, vaxandi kaupmáttur, lækkun á vöxtum íbúðalána og aukin lýðfræðileg eftirspurn eru þættir er hafa stutt rækilega við markaðinn undanfarið og munu væntanlega halda áfram að styðja við kröftugan markað á næstu misserum. Fjárhagsleg skilyrði heimila hafa einnig haldið áfram að batna með minnkandi skuldum og hækkun eignaverðs.

Samspil umsvifa í hagkerfinu og húsnæðisverðsBreyting frá fyrra ári
Heimild: Hagstofa Íslands, Þjóðskrá Íslands
EnglishEN Lykiltölur Fjárhagsskjöl Facebook
Helstu atburðir ársins
Fara efst
Mannauður