Í upphafi árs 2010 tók eignarhald Arion banka á sig núverandi mynd. Það lá fyrir strax í upphafi að ekki var um langtímaeignarhald að ræða. Verkefnið var skýrt, að byggja upp góðan banka sem væri vænlegur fjárfestingarkostur fyrir langtímaeigendur. Að mörgu hefur þurft að huga, handtökin hafa verið mörg en árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Í dag er Arion banki öflugt fjármálafyrirtæki, með traustan viðskiptamannagrunn, öflugt starfsfólk og sterka stöðu á þeim mörkuðum sem hann starfar á. Fjárhagslega stendur bankinn traustum fótum með eiginfjárhlutfall upp á 24,2% og vogunarhlutfall upp á 16,7%. Íslenskt efnahagslíf hefur einnig styrkst á þessum árum. Hagvöxtur undanfarinna ára hefur verið góður, kaupmáttur aukist og verulega dregið úr atvinnuleysi. Einnig hafa skuldir einstaklinga, fyrirtækja og ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu lækkað umtalsvert. Þannig hefur góður árangur náðst í íslensku fjármála- og efnahagslífi á undanförnum árum.
Afar gott ár að baki
Árið 2015 var gott ár fyrir Arion banka. Nam arðsemi ársins 28,1% og markast hún af traustum grunnrekstri bankans en einnig af óreglulegum liðum sem hafa umtalsverð jákvæð áhrif. Regluleg starfsemi bankans gengur vel og skilar ásættanlegri arðsemi eiginfjár, eða 10,4% á árinu, á sama tíma og eigið fé bankans er hátt, eða um 202 milljarðar króna.
Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst starf innan bankans við að styrkja innviði og grunnstarfsemi sem hefur skilað góðum árangri. Traust staða bankans í dag er afrakstur þessarar vinnu.
Efnahagslíf á réttri leið – hillir undir afnám fjármagnshafta
Hlutverk fjármálafyrirtækja er að styðja við vöxt og viðgang fyrirtækja og einstaklinga. Okkar hlutverk er að miðla fjármagni þannig að góðar hugmyndir geti orðið að veruleika, góðar hugmyndir sem skapa störf og stuðla að auknum hagvexti og lífsgæðum. Við hjá Arion banka höfum ekki farið varhluta af auknum umsvifum í íslensku efnahagslífi. Við höfum lagt mikið upp úr því að vera kjarkmikil í þessum efnum og styðja við mikilvæg uppbyggingarverkefni á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Það er okkar mikilvægasta hlutverk, þannig gerum við mest gagn.
Monica Caneman
Stjórnarformaður
Okkar hlutverk er að miðla fjármagni þannig að góðar hugmyndir geti orðið að veruleika, góðar hugmyndir sem skapa störf og stuðla að auknum hagvexti og lífsgæðum.
Íslenskt efnahagslíf er í nokkrum blóma um þessar mundir. Margt hefur komið til, eins og lægri skuldsetning og aukinn kaupmáttur. Að auki hafa ýmsir ytri þættir, svo sem lækkun á hrávörumörkuðum og sterk króna, orðið þess valdandi að verðbólga hefur haldist nokkuð lág. Mikil fjölgun ferðamanna hefur einnig hjálpað íslensku efnahagslífi að ná vopnum sínum og ekki síst vegna ferðaþjónustunnar heyrir atvinnuleysi nú nánast sögunni til. Hefur hagvöxtur verið sterkur á undanförnum árum og er útlit fyrir framhald þar á. Fjárfesting hefur aukist þótt enn vanti nokkuð upp á fyrri kraft í þeim efnum. Líkur eru á að fjármagnshöft sem hafa nú verið við lýði í um sjö ár verði að mestu afnumin árið 2016. Þar með mun einum mikilvægasta kafla endurreisnar íslensks efnahagslífs ljúka. Í kjölfarið munu skuldir ríkisins lækka verulega og búast má við bættu lánshæfismati ríkisins.
Arion banki vel í stakk búinn
Sú áætlun um afnám fjármagnshafta sem kynnt var af íslenskum stjórnvöldum sumarið 2015 var vel undirbúin og um hana virðist ríkja góð sátt. Þegar hafa mikilvægir áfangar náðst, ekki síst með samþykkt nauðasamninga slitabúa föllnu bankanna nú um síðustu áramót.
Eitt af þeim verkefnum sem við höfum unnið að á þessum árum frá 2010 er að búa bankann undir afnám gjaldeyrishafta. Það var ljóst í okkar huga að Arion banki yrði að vera það fjárhagslega sterkur á alla mælikvarða að aldrei myndi koma til þess að bankinn stæði með einum eða öðrum hætti í vegi fyrir því að afnám fjármagnshafta myndi ganga greiðlega fyrir sig. Þannig hefur Arion banki nú um árabil verið undir afnám hafta búinn.
Það var ljóst í okkar huga að Arion banki yrði að vera það fjárhagslega sterkur á alla mælikvarða að aldrei myndi koma til þess að bankinn stæði með einum eða öðrum hætti í vegi fyrir því að afnám fjármagnshafa myndi ganga greiðlega fyrir sig.
Samningar við Kaupþing um endurfjármögnun um 97 milljarða króna voru liður í aðgerðum Kaupþings til að uppfylla stöðugleikaskilyrði stjórnvalda. Þessir samningar eru stærstu lánasamningar sem Arion banki hefur gert. Um var að ræða endurfjármögnun á innstæðum Kaupþings í erlendum myntum og lán frá Seðlabanka Íslands sem Kaupþing hafði eignast.
Endurreisn fyrirtækja og heimila
Verkefnin frá árinu 2010 hafa verið mörg og krefjandi. Eitt það fyrsta sem þurfti að huga að voru þeir miklu fjárhagserfiðleikar og sú óhóflega skuldabyrði sem íslensk fyrirtæki og heimili glímdu við. Þegar upp er staðið hafa um eitt þúsund fyrirtæki sem voru í viðskiptum við Arion banka farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu.
Um viðkvæmt og vandasamt verkefni var að ræða sem um flest tókst framar vonum. Miklu skiptir að við úrlausn þessara mála var farið eftir skýrri og samræmdri aðferðafræði. Þúsundir heimila nýttu sér einnig þau skuldaúrræði sem Arion banki bauð viðskiptavinum. Með lægri skuldabyrði, vaxandi styrk efnahagslífsins og auknum kaupmætti hefur staða íslenskra fyrirtækja og heimila breyst til batnaðar og verður í dag að teljast nokkuð góð. Eru skuldir heimila og fyrirtækja nú á svipuðum slóðum, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, og á upphafsárum þessarar aldar. Á árinu 2015 lækkuðu skuldir heimila um rúm 10% af vergri landsframleiðslu og eru nú um 85%.
Stórum úrlausnarverkefnum lokið
Sum úrlausnarverkefnin sem komu í hlut Arion banka voru umfangsmikil og erfið viðfangs og hefur það tekið drjúgan tíma að leysa endanlega úr þeim. Segja má að árið 2015 hafi einkennst um margt af því að síðustu stóru úrlausnarverkefnin voru til lykta leidd. Má þar einna helst nefna sölu á hlutum í fyrirtækjum sem bankinn hafði tekið yfir sem hluta af skuldauppgjöri. Arion banki seldi í almennum hlutafjárútboðum á árinu 2015 hluti í Reitum, Eik og Símanum. Í kjölfarið voru félögin skráð á aðallista Nasdaq á Íslandi. Einnig voru hlutir bankans í alþjóðlega drykkjarvöruframleiðandanum Refresco seldir og félagið skráð í kauphöll. Hlutur dótturfélagsins BG12 slhf. í Bakkavor Group Ltd. var einnig seldur, í janúar 2016, eftir söluferli í umsjón breska bankans Barclays. Sala á hlutum Arion banka í öllum þessum félögum hafði umtalsverð og jákvæð áhrif á uppgjör ársins.
Arion banki seldi í almennum hlutafjárútboðum á árinu 2015 hluti í Reitum, Eik og Símanum. Í kjölfarið voru félögin skráð á aðallista Nasdaq á Íslandi.
Með úrlausn þessara mála er ljóst að öllum stóru úrlausnarmálunum innan bankans er lokið og er niðurstaðan mjög ásættanleg fyrir bankann. Það er rétt að minna á að við yfirtöku þessara eignarhluta á sínum tíma var mikil óvissa um raunverulegt virði þeirra og alls óvíst hverjar endurheimturnar yrðu. Sú niðurstaða sem nú liggur fyrir er því jákvæð.
Aukin gæði lánabókar – öllum steinum hefur verið velt við
Afleiðing þeirrar miklu vinnu sem fram hefur farið á undanförnum árum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja er annars vegar lægri skuldastaða fyrirtækja og heimila, sem aftur hefur mjög jákvæð áhrif fyrir efnahagslífið, og hins vegar sú staðreynd að Arion banki er í dag í þeirri einstöku stöðu að búa yfir djúpri þekkingu á sínu lánasafni. Í raun er búið að velta við hverjum steini í lánasafni bankans og eru því gæði lánasafnsins vel þekkt og fátt sem getur komið á óvart. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir framtíðaruppbyggingu bankans að hafa þetta traust land undir fótum.
Tímamót í erlendri fjármögnun bankans – Arion banki í fjárfestingarflokk hjá S&P
Á árinu 2015 gaf Arion banki út skuldabréf að upphæð 300 milljónir evra til breiðs hóps fjárfesta. Um var að ræða tímamótaútgáfu fyrir Arion banka og í raun íslenskt fjármálakerfi. Var útgáfan mikilvægur liður í að auka fjölbreytni í fjármögnun bankans.
Standard & Poor´s hækkaði lánshæfismat Arion banka á árinu í BBB-, í fjárfestingarflokk, og eru horfur að mati Standard & Poor´s jákvæðar. Í rökstuðningi S&P er vísað til sterkrar stöðu bankans, bæði sterkrar fjárhagsstöðu og sterkrar stöðu á íslenskum bankamarkaði. Einnig er vísað til vaxandi styrks íslensks efnahagslífs og markast lánshæfismatið áfram af lánshæfismati íslenska ríkisins. Þannig hafa hækkanir á lánshæfismati bankans fylgt hækkunum á lánshæfismati Íslands.
Á árinu 2015 gaf Arion banki út skuldabréf að upphæð 300 milljónir evra til breiðs hóps fjárfesta. Um var að ræða tímamótaútgáfu fyrir Arion banka og í raun íslensk fjármálakerfi.
Arion banki mun áfram sýna frumkvæði í sókn sinni á erlenda fjármögnunarmarkaði eftir því sem aðstæður á mörkuðum leyfa.
Viðburðaríkt og gott ár að baki – Arion banki valinn banki ársins af The Banker
Það er engin tilviljun að Arion banki var valinn banki ársins á Íslandi árið 2015 af tímaritinu The Banker sem er gefið út af The Financial Times. Starfsfólk bankans á þakkir skildar fyrir frábærlega vel unnin störf. Við einsettum okkur strax í upphafi að byggja upp góðan banka og saman hefur okkur tekist það.