Starfsemi Arion banka gekk vel á árinu 2015. Afkoma ársins nam 49,7 milljörðum króna og hafa þar óreglulegir liðir eins og sala bankans á hlutum í yfirteknum félögum mikil og jákvæð áhrif. Arðsemi eiginfjár nam 28,1%. Grunnrekstur bankans styrktist enn frekar og eins og afkoman ber með sér fer bankinn ekki varhluta af auknum krafti í íslensku efnahagslífi. Það var sérstakt ánægjuefni að fagtímaritið The Banker, sem er gefið út af The Financial Times, valdi Arion banka sem banka ársins á Íslandi árið 2015.
Sterk staða á helstu mörkuðum
Grunnrekstur bankans gekk vel á árinu 2015 og styrkti bankinn stöðu sína á þeim mörkuðum sem hann starfar á. Þóknanatekjur halda áfram að vaxa en um 80% þóknanatekna eru vegna þjónustu við fyrirtæki. Eigið fé bankans er í dag mikið, eða um 202 milljarðar króna. Engu að síður var arðsemi eiginfjár af reglulegri starfsemi á árinu 2015 10,4%, sem telst vel viðunandi.
Árið markar kaflaskil
Óreglulegir liðir settu verulegt mark á afkomu Arion banka á árinu 2015. Á árinu kláruðust nokkur umfangsmikil úrlausnarverkefni sem unnið hefur verið að um margra ára skeið. Um er að ræða verkefni sem fólu í sér mikla hagsmuni fyrir bankann. Það er ánægjulegt að þeim hafi lokið með hagfelldum hætti. Mest áhrif hafði sala á hlutum í fimm félögum í óskyldum rekstri. Í öllum tilvikum var Arion banki minnihlutaeigandi. Félögin voru skráð á markað, fyrir utan eitt sem var selt eftir opið söluferli.
Þar með er stærstu úrlausnarverkefnum sem Arion banki hefur tekist á við á undanförnum árum lokið og því markar árið kaflaskil í sögu bankans.
HÖSKULDUR H. ÓLAFSSON
Bankastjóri
Vegna umtalsverðra jákvæðra áhrifa þessara einskiptisatburða á afkomu bankans má ljóst vera að arðsemi ársins upp á 28,1%, er ekki vísbending um arðsemi bankans fram á veg. Segja má að rúmlega 10% arðsemi af reglulegri starfsemi gefi því betri vísbendingu um það sem fram undan er miðað við það eigið fé sem nú er bundið í bankanum.
Þar með er stærstu úrlausnarverkefnum sem Arion banki hefur tekist á við á undanförnum árum lokið og því markar árið kaflaskil í sögu bankans.
Uppbygging hlutabréfamarkaðar hér á landi
Strax í upphafi var það yfirlýst markmið okkar í Arion banka að leggja okkar af mörkum til að efla hlutabréfamarkaðinn hér á landi. Teljum við það mikilvægan hluta af uppbyggingu þróttmikils efnahagslífs. Okkar framlag hefur ekki síst falist í því að beita okkur fyrir því að skrá í kauphöll öll þau félög sem bankinn hafði tekið yfir og áttu þangað erindi. Með almennum hlutafjárútboðum á hlutum í Reitum, Eik og Símanum gaf Arion banki almenningi kost á að eignast hluti í þessum öflugu félögum og verða virkur þátttakandi í íslenskum hlutabréfamarkaði.
Arion banki hefur þannig komið að 60% skráninga undanfarin ár. Þar af voru þrjár skráningar á árinu 2015 og voru það einu nýskráningarnar á Aðallista Nasdaq Ísland á árinu. Af þessu erum við stolt því það var hvorki sjálfgefið né einfalt að ná þessu markmiði.
Arion banki hefur þannig komið að 60% skráninga undanfarin ár. Þar af voru þrjár skráningar á árinu 2015 og voru það einu nýskráningarnar á Aðallista Nasdaq Ísland á árinu.
Mikilvægir áfangar í fjármögnun
Á árinu 2015 var áfram unnið að því að auka fjölbreytni í fjármögnun bankans. Innstæður eru áfram stærsti þáttur fjármögnunarinnar en við höfum aukið vægi annarra þátta. Munar þar mest um 300 milljóna evra skuldabréfaútgáfu bankans í marsmánuði. Bankinn gaf einnig út skuldabréf í norskum krónum og sértryggð skuldabréf í íslenskum krónum, verðtryggð og óverðtryggð. Ákveðnum áfanga var náð á árinu þegar Standard & Poor‘s hækkaði lánshæfiseinkunn Arion banka í fjárfestingarflokk, matið er nú BBB-, með jákvæðum horfum.
Ákveðnum áfanga var náð á árinu þegar Standard & Poor‘s hækkaði lánshæfiseinkunn Arion banka í BBB-, fjárfestingarflokk, með jákvæðum horfum.
Aukin umsvif viðskiptabankans
Arion banki fékk á árinu hæstu einkunn í samkeppni um fjármálaþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík. Mun bankinn hefja þjónustu í þessari stærstu flugstöð landsins á vormánuðum 2016. Arion banki hefur ekki áður verið með starfsemi á Keflavíkurflugvelli eða á Reykjanesi og því er um sérstaklega ánægjulegan áfanga að ræða fyrir bankann. Með auknum straumi ferðafólks til landsins er fjármálaþjónusta á helsta alþjóðaflugvelli landsins mikill fengur fyrir bankann. Verður spennandi að takast á við það verkefni og þjónusta nýjan hóp viðskiptavina.
Arion banki fékk á árinu hæstu einkunn í samkeppni um fjármálaþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík. Mun bankinn hefja þjónustu í þessari stærstu flugstöð landsins á vormánuðum 2016.
Að auki opnaði Arion banki nýtt útibú á Siglufirði í kjölfar sameiningar Arion banka og AFL – sparisjóðs. Umsvif Arion banka á Norðurlandi eru því orðin nokkuð mikil þar sem bankinn starfrækir nú einnig fjarvinnslu vegna lífeyrisþjónustu á Siglufirði og er alls með 5 útibú í landshlutanum.
Straumlínustjórnun til að bæta þjónustu við viðskiptavini
Við höfum með markvissum hætti frá árinu 2012 unnið að innleiðingu straumlínustjórnunar. Við höfum tekið þetta föstum tökum og hefur teymi sérfræðinga sinnt innleiðingunni sem er vel á veg komin, en um 90% starfsfólks hafa farið í gegnum innleiðinguna. Mikilvægur þáttur í straumlínustjórnun er áherslan á stöðugar umbætur og er það sá hugsunarháttur sem við höfum tileinkað okkur. Markmiðið er að á árinu munum við til viðbótar við okkar daglegu störf sinna á milli 5 og 6 þúsund umbótaverkefnum, stórum og smáum, sem öll hafa það markmið að auka skilvirkni í starfseminni til hagsbóta fyrir okkar viðskiptavini, því markmið straumlínustjórnunar er fyrst og fremst að bæta þjónustu við viðskiptavini.
Arion banki veitir viðskiptavinum sínum alhliða fjármálaþjónustu
Mikilvægur þáttur í stefnu Arion banka er að bjóða viðskipavinum – einstaklingum, fyrirtækjum og fjárfestum – alhliða fjármálaþjónustu. Þannig veitir Arion banki öfluga viðskiptabankaþjónustu um land allt og á gott samstarf við einstaklinga og fyrirtæki. Að auki sinnir öflugt teymi sérfræðinga á sviði lánamála og helstu atvinnugreina landsins lánsfjárþörf stærri fyrirtækja landsins. Arion banki er leiðandi á sviði eignastýringar, bæði hvað varðar stærð og þjónustuframboð. Að auki höfum við verið í fararbroddi hér á landi þegar kemur að fjárfestingarbankastarfsemi og hefur áður verið komið inn á mikil umsvif á árinu á því sviði, en bankinn hafði m.a. umsjón með öllum þremur nýskráningum ársins í íslensku kauphöllina.
Arion banki er leiðandi á sviði eignastýringar, bæði hvað varðar stærð og þjónustuframboð.
Reglulega skýtur upp kollinum hér á landi umræða um aðskilnað fjárfestingarbanka- og viðskiptabankastarfsemi. Verulega hefur dregið úr þeirri umræðu í okkar nágrannalöndum enda á umræðan síður við um minni fjármálafyrirtæki eins og starfrækt eru á Norðurlöndum. Sú starfsemi sem fer fram innan fjárfestingarbankasviðs Arion banka, til viðbótar við greiningardeild bankans, er annars vegar ráðgjöf til fyrirtækja, t.d. á sviði skuldabréfaútgáfu og skráninga í kauphallir, og hins vegar hefðbundin markaðsviðskipti, þ.e. miðlun verðbréfa. Þannig felst starfsemin fyrst og fremst í ráðgjöf og miðlun fjármagns og verðbréfa og á hún því ekkert sammerkt með starfsemi fjárfestingarfélaga, eins og stundum hefur verið haldið fram. Ekkert í þeirri starfsemi sem við hjá Arion banka fellum undir fjárfestingarbankastarfsemi stofnar innlánum okkar viðskiptavina í hættu. Mikilvægt er að hafa þetta í huga í allri umræðu um þetta efni, til viðbótar við þá staðreynd að umbætur í því regluverki sem nú myndar umgjörð um starfsemi fjármálafyrirtækja hafa skilyrt mjög fjárfestingarbankastarfsemi og dregið úr allri áhættu henni tengdri.
Öflug dótturfélög styðja við starfsemi og auka þjónustuframboð
Arion banki á þrjú dótturfélög sem öll gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að bjóða okkar viðskiptavinum alhliða fjármálaþjónustu. Þetta eru greiðslumiðlunarfyrirtækið Valitor, sjóðastýringarfyrirtækið Stefnir og Okkar líftryggingar. Tvö fyrrnefndu er leiðandi á sínu sviði hér á landi og Okkar líftryggingar er elsta íslenska líftryggingafélagið. Á árinu 2015 samdi Arion banki við BankNordik um kaup á skaðatryggingafélaginu Verði, en kaupin eru háð samþykki eftirlitsaðila. Gera má ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir um mitt ár 2016. Markmið Arion banka með kaupunum er að styrkja bankann enn frekar sem alhliða fjármálafyrirtæki, en með kaupunum bætast skaðatryggingar við þjónustuframboð bankans.
Arion banki á þrjú dótturfélög sem öll gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að bjóða okkar viðskiptavinum alhliða fjármálaþjónustu.
Aukið vægi stafrænnar þjónustu
Það dylst engum að vægi upplýsingatækni og stafrænnar þjónustu á aðeins eftir að aukast á sviði fjármálaþjónustu. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt fyrir fjármálafyrirtæki að vera á tánum. Við höfum á undanförnum árum lagt mikla áherslu á þennan þátt okkar þjónustu enda gera okkar viðskipavinir þá kröfu til okkar. Við höfum útvíkkað hraðbankaþjónustu okkar með nýrri kynslóð hraðbanka og Netbanki Arion banka er í stöðugri þróun og er áfram gríðarlega vinsæl þjónustuleið. Vægi Arion appsins í okkar þjónustu heldur áfram að aukast og er svo komið að innskráningar í Arion appið eru fleiri en í netbankann. Við munum á næstu misserum auka vægi stafrænnar þjónustu enn frekar í okkar vöruþróun og starfsemi. Það eru svo sannarlega spennandi tímar fram undan á sviði stafrænnar fjármálaþjónustu.
Við munum á næstu misserum auka vægi stafrænnar þjónustu enn frekar í okkar vöruþróun og starfsemi.
Arion banki – fyrir framtíðina
Fjármálaþjónusta snýst alltaf um framtíðina, með einum eða öðrum hætti. Á þetta leggjum við áherslu við okkar viðskiptavini með margvíslegum hætti. Við hvetjum til sparnaðar þar sem því verður við komið, hvort sem það er til að spara fyrir íbúðakaupum, næsta sumarfríi eða öðru. Eitt það mikilvægasta við fjármálaþjónustu er að aðstoða viðskiptavini við að skapa sér og sínum fjárhagslegt öryggi til framtíðar. Mikilvægur þáttur í þessu er fjármálafræðsla sem við höfum lagt mikla áherslu á. Þar leggjum við ekki síst áherslu á að ná til ungs fólks. Samstarf Arion banka og Stofnunar um fjármálalæsi hefur verið farsælt á þessu sviði en Arion banki hefur um árabil verið aðalbakhjarl stofnunarinnar.
Við höfum einnig lagt ríka áherslu á að hlúa að nýsköpunarumhverfinu á Íslandi. Arion banki er frumkvöðull hér á landi þegar kemur að viðskiptahröðlum. Við höfum starfrækt viðskiptahraðlana Startup Reykjavík frá árinu 2012 og Startup Energy Reykjavík, í samstarfi við leiðindi fyrirtæki á sviði orkumála, frá árinu 2013. Arion banki hefur fjárfest í öllum þeim fyrirtækjum sem hafa farið í gegnum hraðlana, alls 54 fyrirtækjum. Á árinu var Startup Reykjavík valinn besti viðskiptahraðallinn á Norðurlöndum af Nordic Startup Awards. Sú staðreynd að þau fyrirtæki sem hafa farið í gegnum viðskiptahraðlana hafa aflað, ýmist í hlutafé eða styrkjum, rúmlega 1,7 milljarða króna, er staðfesting á þeim árangri sem viðskiptahraðlarnir hafa skilað.
Sú staðreynd að þau fyrirtæki sem farið hafa í gegnum viðskiptahraðlana hafa aflað, ýmist í hlutafé eða styrkjum, rúmlega 1,7 milljarða króna, er staðfesting á þeim árangri sem viðskiptahraðlarnir hafa skilað.
Að auki fjárfesti Arion banki í Eyri Sprotum fyrir um milljarð króna á árinu. Eyrir Sprotar er fjárfestingarsjóður sem sérhæfir sig í fjárfestingum í fyrirtækjum sem eru ung en með mikla og alþjóðlega vaxtarmöguleika. Það má segja að með tilkomu viðskiptahraðlanna og nokkurra fjárfestingarsjóða eins og Eyris Sprota hafi frumkvöðlaumhverfið hér á landi breyst til mikils batnaðar á aðeins örfáum árum og erum við hreykin af því að hafa lagt okkar af mörkum.
Saman látum við góða hluti gerast – góður árangur grundvöllur að spennandi framtíð
Hlutverk okkar er að styðja við okkar viðskiptavini í þeim verkefnum sem þeir taka sér fyrir hendur. Þannig leggjum við okkar af mörkum við að bæta hag þeirra og efla efnahagslífið. Bankinn stendur traustum fótum og er vel í stakk búinn til þess að styðja við viðskiptavini fram á veg.
Við höfum náð góðum árangri á undanförnum árum og er árið 2015 þar engin undantekning. Það eru spennandi tímar fram undan, vænta má þess að afgerandi skref verði tekin í afnámi fjármagnshafta og að Arion banki fari í formlegt söluferli. Við erum vel undirbúin – enda má segja að verkefni okkar á undanförnum árum hafi um margt falist í því að búa bankann undir þessa mikilvægu áfanga. Starfsfólk bankans á þakkir skildar sem og viðskiptavinir okkar fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf.